Hoppa yfir valmynd
video thumbnail

Creditinfo hefur vaxið á heimsvísu meðal annars gegnum útboð Alþjóðabankans

Creditinfo hóf sína starfsemi erlendis með eigin fjármagni, en hefur fengið mikilvæg verkefni í gegnum útboð Alþjóðabankans. Meðal annars vann félagið útboð árið 2015 um uppbyggingu á lánshæfismati fyrir banka í átta ríkjum Vestur Afríku. Þegar hluti rekstursins var seldur í mars 2021 var félagið metið á 30 milljarða. Hér má sjá frétt um söluna.

Saga Creditinfo lýsir þrautseigju, trú á lausnir fyrirtækisins og áhuga á því að nýta þær til uppbyggingar á fjarlægum mörkuðum. Eigendur fyrirtækisins höfðu séð þau áhrif sem lausnir þeirra höfðu í íslensku samfélagi og trúðu því að þær gætu einnig komið að góðum notum í öðrum löndum. Það var áhugavert að heyra Hákon Stefánsson stjórnarformann segja frá reynslu þeirra á opnunarhátíð Heimstorgsins.

Heimsmarkmiðasjóður styður lánveitingu í Afríku

Árið 2019 fékk Creditinfo styrk úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífsins til að útvíkka hefðbundið lánshæfismat og gera þeim sem ekki eiga viðskiptasögu í banka einnig mögulegt að taka þar lán. Í dag eiga frumkvöðlar í Vestur Afríku með enga viðskiptasögu ekki kost á láni frá viðskiptabanka og geta eingöngu nýtt sé „microcredit“ á allt að 100% vöxtum. Slík lán hafa vissulega opnað tækifæri fyrir marga, en þau eru áhættusöm og það má lítið út af bregða. Lánið stendur t.d. undir kartöfluútsæði og þú nærð að borga lánið til baka með uppskerunni og jafnvel eiga afgang. En þú nærð seint að safna fyrir stækkun framleiðslunnar og uppskerubrestur í eitt skipti er nóg til að setja þennan litla rekstur í þrot. Aðgangur að fjármagni á markaðskjörum getur skipt sköpum. Hér má sjá frétt um styrkveitinguna.

Íslensk fyrirtæki eiga erindi í þróunarlöndum

Að mati Creditinfo eru mikil tækifæri í þróunarlöndunum fyrir íslenskt hugvit og lausnir í uppbyggingu innviða og þjónustu. Víða er þörf fyrir einfaldar og ódýrar lausnir, sem síðan geta vaxið með stækkandi mörkuðum. Íslensk fyrirtæki þekkja vel þá stöðu að þurfa að skila gæðum og áreiðanleika sem má þó ekki kosta mikið vegna smæðar heimamarkaðarins hér. Opinberir styrkir til verkefna af þessu tagi, svo sem í gegnum Heimsmarkmiðasjóðinn, styðja við framgang verkefna og skapa traust.

The Credit Info story