
Innkaup Sameinuðu þjóðanna í Afríku, Asíu og Balkan löndum.
Kynning og einkafundir um innkaup SÞ í Afríku, Asíu og Balkan
Þriðjudaginn 13. apríl kl. 10:00 verður haldinn upphafsfundur kynningarátaks á vegum UNOPS sem er ein af innkaupaskrifstofum Sameinuðu þjóðanna. UNOPS er með höfuðstöðvar í Kaupmannahöfn og annast árlega innkaup á vörum og þjónustu fyrir ríflega milljarð USD.
Á upphafsfundinum sem er rafrænn verður sagt frá starfsemi UNOPS á sviði innkaupa og greint frá innkaupatækifærum í Afríku, Asíu og á Balkanskaga með áherslu á sjálfbærni og nýsköpun. Upphafsfundurinn er mikilvægur fyrir þau fyrirtæki sem vilja taka þátt í verkefnum í áðurnefndum heimsálfum, en gagnast einnig öðrum fyrirtækjum sem vilja kynnast tækifærum á vettvangi UNOPS. Kostnaður við upphafsfundinn er ISK 20.640 og öll fyrirtæki sem skrá sig komast á fundinn.
Í kjölfar upphafsfundarins verða haldnar þrjár aðskyldar heimsálfukynningar á tækifærum í Afríku, Asíu og og á Balkanskaga. Á þessum fundum verður nánari lýsing á innkaupaþörfum í hverri álfu og í kjölfarið fá þátttakendur einkafund með UNOPS þar sem þau geta kynnt sig og lausnir sínar. Innkaupaþarfir heimsálfanna eru margvíslegar og snúa meðal annars að umhverfisvænum innviðum, vatns- og úrgangsstjórnun, heilsutækni ásamt hönnunarráðgjöf og framkvæmdum tengdum grænni og sjálfbærri tækni.
Kostnaður við hvern heimsálfufund er ISK 82.560, en þess ber að geta að aðeins þau fyrirtæki sem verða samþykkt til þátttöku greiða þátttökugjaldið. Aðeins 5-6 fyrirtæki frá hverju landi verða valin til að taka þátt og ræðst valið annars vegar af því hverjir skrá sig fyrst og hins vegar hversu viðeigandi þjónusta fyrirtækjanna er miðað við innkaupaþarfir í hverri heimsálfu.
Um fyrsta viðburð sinnar tegundar er að ræða og Norðurlöndin hafa ekki áður unnið saman með þessum hætti að innkaupum SÞ. Hér er því einstakt tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til að nýta þekkingu og reynslu nágrannalandanna og komast í beint samband við eina af lykil innkaupaskrifstofum SÞ.
Meðfylgjandi er upplýsingabæklingur um viðburðinn ásamt skráningarformi.
Þess ber að geta að fyrirtæki verða að vera skráð á markaðstorg SÞ (e. UNGM) til að geta tekið þátt í ofangreindum viðburðum, en markaðstorgið veitir upplýsingar öll innkaup Sameinuðu þjóðanna og gerir fyrirtækjum kleift að taka þátt í innkaupum.
Nánari upplýsingar veitir Brynhildur Georgsdóttir hjá Íslandsstofu.
Lönd / Heimsálfa
Afríka, Asía & BalkanTækifæri
Viðburðir