Alþjóðabankinn (The World Bank Group)
Alþjóðabankinn er meðal stærstu og áhrifamestu alþjóðastofnana á sviði þróunarsamvinnu í heiminum. Hlutverk bankans er að stuðla að efnahagslegri og félagslegri uppbyggingu þróunarlanda. Bankinn starfar með stjórnvöldum hlutaðeigandi ríkja og veitir þeim aðstoð í formi lána, styrkja og ráðgjafar. Ísland á víðtækt samráð við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin um stefnumótun innan Alþjóðabankans en þessi lönd mynda eitt kjördæmi bankans.
Alþjóðabankasamsteypan (World Bank Group) samanstendur af fimm stofnunum:
- Alþjóðabanki til enduruppbyggingar og framþróunar (International Bank for Reconstruction and Development - IBRD), stofnaður 1945. IBRD veitir lán með niðurgreiddum markaðsvöxtum til landa í Austur Evrópu og til þróunarríkja sem ekki eru á meðal hinna fátækustu.
- Alþjóðaframfarastofnunin (International Development Association - IDA) stofnuð 1960. IDA er sú stofnun innan Alþjóðabankasamsteypunnar sem aðstoðar fátækustu þróunarríkin með styrkjum, hagstæðum lánum og ábyrgðum til þróunarverkefna, auk ráðgjafar.
- Alþjóðalánastofnunin (International Finance Corporation - IFC). IFC er stærsta alþjóðlega þróunarstofnunin sem einblínir sérstaklega á einkageirann í þróunarlöndum.
- Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (Multilateral Investment Guarantee Agency - MIGA) stofnuð 1989. MIGA veitir ábyrgðir vegna fjárfestinga einkaaðila í þróunarlöndum gegn áföllum sem ekki eru viðskiptalegs eðlis.
- Alþjóðastofnunin um lausn fjárfestingardeilna (International Center for Settlement of Investment Disputes – ICSID) stofnuð 1966. ICSID veitir aðstoð til sáttagerðar og gerðardóma í lausnum fjárfestingardeilna og stuðlar þannig að gagnkvæmu trausti milli ríkja og erlendra fjárfesta.
Sjá nánar á vef stjórnarráðsins.