Grænar lausnir og velferðartækni í Slóvakíu.
Opið er fyrir styrkumsóknir í Uppbyggingasjóð EES á sviði nýsköpunar og viðskiptaþróunar.
Markmið styrkveitingar er að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki í þróun á nýjum og grænum tæknilausnum; gera núverandi viðskiptaferla umhverfisvænni og styðja við nýsköpun á sviði velferðartækni og tækni sem aðstoðar fólk við að búa sem lengst á eigin heimili.
Fjárhæð styrks í hverju verkefni getur verið á bilinu 200.000 til 2.000.000 EUR og styrkhlutfall allt að 80%.
Fyrirkomulagið er þannig að styrkirnir eru veittir slóvönskum fyrirtækjum, en þau eru hvött til samstarfs við aðila frá Íslandi, Noregi eða Liechtenstein. Þannig skapast tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til þátttöku í verkefnunum, en forsendan er þó sú að þau komist í samstarf við fyrirtæki í Slóvakíu.
Hér má nálgast útboðslýsinguna sjálfa og hér er heimasíða verkefnisins.
Umsóknarfrestur er til 4. október 2021. Til skoðunar er hvort haldinn verður viðburður til að kynna verkefnið og stuðla að tengslamyndun íslenskra og slóvakískra fyrirtækja. Slíkur viðburður verður kynntur sérstaklega.
Frekari upplýsingar veitir Egill Níelsson hjá Rannís og Baldur Pétursson hjá Orkustofnun, en áhugasömum er einnig velkomið að hafa samband við Brynhildi Georgsdóttur hjá Íslandsstofu.
Við hvetjum áhugasöm fyrirtæki til að skrá sig í gagnagrunn Utanríkisráðuneytisins yfir fyrirtæki sem eru áhugasöm um verkefni Uppbyggingasjóðsins en grunnurinn gerir erlendum og innlendum aðilum kleift að finna samstarfsaðila. Hér er hlekkur á skráningarform til að láta skrá sig á listann.
Lönd / Heimsálfa
OpiðSlóvakíaTækifæri
Styrkur